Allir Íslendingarnir hér í Danmörku eru komnur áfram í 8. liða úrslit í bikarnum með sínum liðum. Odense Volleyball þar sem að þeir Galdur, Ævarr og Tóti spila, spiluðu á sunnudaginn í 16. liða úrslitum og sigruðu leikinn sinn 3-1 en Elísabet og Sara spiluðu sína leiki í gær og unnu bæði lið 3-0 og eru þar með komin í 8. liða úrslit.
Odense Volleyball – Aalborg
Sunnudaginn 12. nóvember fengu Odense Volleyball heimsókn frá Aalborg Volleyball í 16. liða úrslitum í danska bikarnum og sigruðu leikinn 3-1 (23-25, 25-23, 25-16, 25-16)
Gestirnir byrjuðu leikinn vel og komu sér í 4-9 forystu, en þá tók þjálfari Odense Volleyball leikhlé og eftir það spiluðu heimamenn mun betur og var hrinan ansi jöfn að 23-23 en gestirnir höfðu betur og sigruðu hrinuna 23-25
Heimamenn létu það þó ekki taka sig út af laginu að Aalborg hefðu tekið eina hrinu af þeim og komu með krafti inn í 2. hrinu. Gestirnir héldu þó áfram að spila vel en dugði það ekki til og sigruðu heimamenn hrinuna 25-23.
Í næstu tveim hrinum var sókn Odense volleyball sterk og með góðu og dreifðu spili áttu gestirnir erfitt með að stoppa þá og sigruðu heimamenn seinni tvær hrinurnar 25-16 og tryggðu sér þar með sæti í 8. liða úrslitum í bikarnum.
Gentofte Volley. 2 – Holte
Holte fór í heimsókn til Gentofte mánudaginn 13. nóvember þar sem að þær spiluðu á móti 1. deildar liðinu þeirra.
Holte konur komu með krafti inn í leikinn og sigruðu 1. hrinu sannfærandi. Heimakonur héldu þó betur í þær í næstu 2 hrinum, ekki dugði það þó til og sigraði Holte leikinn sannfærandi 3-0 og þar með komnar áfram í 8. liða úrslit í bikarnum.
Amager Vk – Gentofte
Í gærkvöldi spilaði Gentofte við Amager VK á útivelli. Amager VK er 1. deildar lið en eins og flestir vita þá getur allt gerst í bikarleikjum. Gentofte konur vissu að þær þyrftu að koma vel gíraðar í leikinn og vera tilbúnar fyrir hvað sem er og alls konar bolta frá andstæðingnum. Gentofte gerðu það og skilaði það 3-0 sigri og eru þær því komnar áfram í næstu umferð í bikarnum.
Í lok vikunnar kemur það í ljós hverjum liðin munu mæta í 8. liða útslitum og dagsetningar.