Innlendar fréttir

Æsispennandi tvíhöfði í Digranesi

Í gær voru spilaðir tveir æsispennandi leikir í Digranesinu þar sem að HK fékk Völsung í heimsókn.

Seinasliðna helgi spiluðu bæði HK lið á heimavelli en fengu bæði lið Þrótt Fjarðabyggð í heimsókn. HK konur unnu sinn leik 3-0 (25-20, 25-17 og 25-22) en karlamegin unnu Þróttur Fjarðabyggð 1-3 (26-28, 31-29, 20-25 og 21-25).

HK – VölsungurUnbrokendeild KVK

Leikurinn byrjaði jafn þar sem að liðin skiptust á því að skora. Um miðja hrinu gáfu heimakonur þó í og komu sér í 18-13 forystu. Völsungur stóðu í HK konum, sem ekki dugði þó til og sigruðu heimakonur hrinuna 25-20.

Völsungur byrjuðu 2. hrinuna sterkt og eftir 5 ása í röð frá Heiðdísi Eddu var Völsungur með 1-6 yfirhönd. Gestirnir voru í stuði en í stöðunni 4-10 fyrir Völsung tók þjálfari HK leikhlé. Ekki stoppaði það gestina þar sem að þær leiddu hrinuna 6-12 og í stöðunni 13-19 fyrir Völsung tók þjálfari HK sitt annað leikhlé í von um að geta snúið hrinunni við. Ekki dugði það þó til og sigruðu Völsungur hrinuna sannfærandi 15-25.

HK konur komu að krafti inn í þriðju hrinu þar sem að þær leiddu hrinuna 11-6. Með sterkum sóknum og stabílum hávörnum HK áttu gestirnir erfitt með að halda í við þær og voru heimakonur með 17-10 forystu. En þá tók þjálfari Völsungs leikhlé og eftir það náðu gestirnir hægt og rólega að minka muninn í 23-19. HK konur höfðu þó betur og lokuðu hrinunni 25-20.

4. hrina byrjaði jöfn en var HK þó alltaf í nokkura stiga forystu. Í stöðunni 13-9 fyrir HK tók þjálfari Völsungs leikhlé. Þá settu gestirnir í annan gír og jöfnuðu HK í 15-15. Völsungur héldu áfram með krafti og komu sér í 16-19 forystu. Þjálfari HK tók leikhlé í stöðunni 18-21 fyrir Völsungi, ekki dugði það til og eftir spennandi hrinu sigraði Völsungur hrinuna 20-25 og knúðu fram oddahrinu.

Mikil spenna var í húsinu og byrjaði Völsungur hrinuna sterkt þar sem að þær leiddu 1-3 og 3-6. HK náði þó að jafna í stöðuna 6-6 og fengu snúninginn í stöðunni 8-7. Þjálfari Völsungs tók leikhlé í stöðunni 12-9 fyrir HK en ekki létu heimakonur það stoppa sig þar sem að þær komu sér í góða stöðu 14-11. Gestirnir voru ekki tilbúnir að gefast upp og knúðu fram upphækkun þegar að þær komust í 14-14. Eftir langan og æsispennandi leik lokaði HK hrinunni 18-16 og sigruðu þar með leikinn 3-2.

Þetta var seinasti leikur HK á árinu og liggja þær í 3. sæti deildarinnar með 20 stig eftir 10 spilaða leiki. Völsungur liggur í 4. sæti Unbrokendeildarinnar með 16 stig eftir 10 spilaða leiki en þær eiga einn enn leik eftir á árinu þann 9. desember þar sem að þær munu fá Álftanes í heimsókn til Húsavíkur.

Stigahæðst í liði HK var Heba Sól Stefánsdóttir með 23 stig. Stigahæðst í liði Völsungs var hún Nikkia með 17 stig.

HK – Völsungur – Unbrokendeild KK

Eftir langan leik hjá stelpunum var komið að því að flauta leikinn í gang hjá körlunum.

HK menn byrjuðu leikinn vel og voru 4-1 yfir. Ekki voru gestirnir þó lengi að því að jafna og var staðan orðin 7-7. Heimamenn voru þó í stuði og komu sér í 15-9 forystu þegar að þjálfari Völsungs tók leikhlé. Ekki gerði það mikið fyrir gestina þar sem að HK voru 19-10 yfir og sigruðu hrinuna sannfærandi 25-14.

Völsungs menn voru ekki sáttir með fyrstu hrinuna og komu inn í 2. hrinu með krafti og leiddu hrinuna 3-11. Þjálfari HK tók leikhlé í stöðunni 3-13. Eftir það náðu heimamenn að vinna sig upp hægt og rólega og minnka muninn í 17-21 og 19-23. Völsungur ætluðu þó ekki að láta HK stela af sér hrinunni og lokuðu henni 19-25 og var staðan þá orðin 1-1 í hrinum.

3. hrina var æsispennandi þar sem að liðin skiptust á því að skora og var staðan 9-9, 13-13. Í stöðunni 16-16 gaf HK í og komu sér í 19-16 forystu, þjálfari Völsungs tók þá leikhlé og náðu gestirnir að minka muninn í 23-22. Hrinan endaði á því að fara í upphækkun og hafði HK betur og sigraði hrinuna 28-26.

Fjórða hrina var jöfn fram að stöðunni 13-13. Þá komu Völsungur sér í 13-16 forystu og tók þjáfari HK þá leikhlé. Gestirnir leiddu restina af hrinunni og sigruðu hana að lokum 20-25 og knúðu fram oddahrinu.

HK menn byrjuðu oddahrinuna á því að koma sér í 4-1 og 7-4 forystu. Heimamenn fengu síðan snúninginn í stöðunni 8-6. Völsungur náðu að minnka muninn í 14-13 en HK lokuðu hrinunni 15-13 og sigruðu þar með leikinn 3-2.

HK eru nú í 4. sæti Unbrokendeildarinnar með 16 stig eftir 12 spilaða leiki og eiga þeir einn leik eftir á árinu þar sem að þeir taka á móti Aftureldingu þann 13. desember. Völsungur er í 7. sæti í deildinni og eiga þeir einnig einn leik eftir á árinu þar sem að þeir fá Stál-úlf í heimsókn þann 9. desember.

ekkert stigaskor var úr leiknum, en fréttin verður uppfærð síðar.