Innlendar fréttir

Afturelding komnar skrefi nær Íslandsmeistaratitlinum

Fyrsti leikur í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn fór fram á Akureyri í gærkvöldi þar sem KA tók á móti Aftureldingu. Heimakonur náðu fljótt taki á fyrstu hrinu þar sem þær komust komust í fína forystu en gestirnir náðu alltaf að jafna leikinn á ný. KA konur voru lengi vel að jafnaði tveimur stigum á undan gestunum í hrinunni þar til í stöðunni 19-19. Eftir það varð leikurinn gríðarlega spennandi og skiptust liðin á að leiða leikinn. Á endanum fór hrinan í upphækkun þar sem Aftureldingarstúlkur höfðu betur og unnu hrinuna 24-26.

Það virðist sem þetta hafi slökkt svolítið í heimakonum því Afturelding vann næstu hrinu tiltölulega örugglega. Þær náðu fjótt upp góðri forystu og áttu KA konur fá svör við góðu spili gestanna. Að lokum vann Afturelding hrinuna hvorki meira né minna en 15-25 og þær því komnar 0-2 yfir í leiknum og bara einni hrinu frá því að komast yfir í einvíginu.

Þriðja hrinan spilaðist síðan mjög svipað og sú önnur þar sem KA reyndist erfitt að stoppa gestina og unnu þær hrinuna sannfærandi 15-25 líkt og í annari hrinu.

Stigahæst í liði KA var Paula Del Olmo með 16 stig og þar á eftir var það Julia Bonet með 11 stig. Í liði gestanna var það Thelma Dögg með 18 stig og á eftir henni var Valdís Unnur með 14 stig.

Næsti leikur í einvíginu er n.k. sunnudag, 28. apríl í Mosfellsbæ.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *