Innlendar fréttir

Afturelding með 1-3 sigur gegn HK

Seinastliðinn miðvikudag tók HK á móti Aftureldingu í Digranesinu í Unbrokendeild kvenna. Fyrir leikinn tóku HK konur á móti verðlaunum frá HK þar sem að þær voru valdnar lið ársins 2023 hjá HK. Þetta var seinasti leikur liðanna í hefðbundnu deildarkeppninni, en núna fara liðin að spila í kross um deildarmeistaratitilinn.

Liðin voru jöfn í fyrstu hrinu og skiptust á því að skora. Í stöðunni 9-9 gaf þó Afturelding hressilega í og komu sér í 9-15 forystu. HK áttu erfitt með að brúa bilið og var staðan orðin 13-21 fyrir Aftureldingu. HK konur settu þó í fimmta gír undir lok hrinunnar og minkuðu muninn í 21-24. Gestirnir höfðu samt betur og lokuðu hrinunni 21-25.

Önnur hrina byrjaði af sama skapi og sú fyrsta og var staðan 8-8 og 12-12. Um miðja hrinuna gáfu Afturelding í og komu sér í 14-19 forystu. HK konur stóðu í gestunum, en ekki dugði það til og tóku Aftureldingar konur hrinuna 20-25.

Afturelding voru þá komnar í 0-2 forystu og HK komið með bakið upp við vegg. HK byrjuðu hrinuna vel og komu sér í 4-1 forystu. Afturelding komu sér samt fljótt á strik og var staðan orðin jöfn í 6-6. Liðin voru jöfn og skiptust á því að skora en HK hélt þó alltaf yfirhöndinni og var staðan orðin 18-14. HK hélt áfram að pressa á gestina og voru þær komnar í 22-14 forystu. Afturelding átti erfitt með að halda í við HK og sigruðu heimakonur hrinuna 25-16.

HK konur voru í stuði og byrjuðu fjórðu hrinuna af krafti sem kom þeim í 5-0 forystu. Gestirnir gáfu þó í og náðu að jafna í stöðuna 6-6. Liðin voru jöfn og skiptust á því að skora og var aldrei meira en eins til tveggja stiga munur á liðunum. Eftir æsispennandi hrinu hafði Afturelding betur og sigruðu hirnuna 23-25 og þar með leikinn 1-3.

Eftir leikinn er Afturelding í fyrsta sæti deildarinnar jafnar KA með 31 stig en HK er í þriðja sæti með 23 stig og munu bæði lið þá keppa í svokölluðum efri kross um deildarmeistaratitilinn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *