Í gær fór fram karlaleikurinn í Meistarar Meistaranna þar sem Hamar tók á móti Aftureldingu í Hveragerði.
Fyrsta hrinan fór fjörlega af stað þar sem bæði lið skiptust á að leiða þar til Afturelding náði fjögra stiga forustu. Hamar tók þá leikhlé en dugði það ekki til að stappa stálinu í heimamenn sem náðu aldrei að vinna upp forskot Aftureldingar sem kláraði hrinuna 25-17.
Það var allt annað að sjá til Hamars í annari hrinu þar sem þeir byrjuðu mjög vel og komust í 7-0 forustu. Afturelding náði sér aldrei í gang og leiddi Hamar 15-7 þegar komið var í hálfa hrinu. Eftirleikurinn var heldur auðveldur fyrir heimamenn sem kláruðu hrinuna heldur sannfærandi 25-11 og jöfnuðu þar með leikinn 1-1 í hrinum.
Þriðja hrina spilaðist svipað og önnur þar sem Hamar byrjaði af krafti og komu sér snemma í góða stöðu. Afturelding átti fá svör við góðum sóknarleik heimamanna sem kláraði hrinuna sterkt 25-13.
Afturelding komu einbeittir inn í fjórðu hrinu og voru fljótt komnir í góða stöðu þegar staðann var 11-6. Gestirnir héldu áfram góðu spili og leiddu þegar Hamar tók leikhlé í stöðunni 18-13. Heimamenn unnu sig þá rólega aftur inn í hrinuna og jöfnuðu í 22-22. Tók við spennandi lokasprettur þar sem Afturelding enduðu betur og unnu hrinuna 25-23 og jöfnuðu þar með 2-2 í hrinum.
Oddahrinan var mjög jöfn framan af þar sem liðinn skiptust á að leiða. Afturelding náði þá tveggja stiga forskoti þegar liðinn skiptu um vallarhelming í stöðunni 8-6. Gestirnir gáfu þá lítið eftir og héldu sterkir út hrinuna sem þeir tóku 15-9 og urðu þar með Meistarar Meistaranna með 3-2 sigri.