Innlendar fréttir

Afturelding sigraði 1-3 gegn HK í fyrsta leik í efri kross.

Í gærkvöldi fékk HK Aftueldingu í heimsókn í Unbroken deild KVK þar sem að fyrsti leikur í efri kross var spilaður.

HK Konur byrjuðu hrinuna vel og komu sér í 3-0 forystu. Aftureldingar konur voru þó ekki lengi að setja fótinn niður og jöfnuðu í stöðunni 9-9. Næstu stig skiptust liðin á að skora en voru gestirnir ekki lengi að ná forystu og komu sér í stöðuna 12-15. HK náðu þó að jafna í stöðuna 15-15 en gáfu þá Aftureldingar konur aftur í og leiddu 15-18 þegar að þjálfari HK tók sitt fyrsta leikhlé. Gestirnir létu það þó ekki á sig fá og héldu áfram að pressa á heimakonur og leiddu hrinuna 15-20. Í stöðunni 17-23 fyrir Aftureldingu gerði þjálfari HK tvöfalda skiptingu og komu þær Ísabella og Sóldís inn á með frábæra innkomu þar sem að Ísabella gerði þrjá ása og Sóldís með frábærar sóknir. Í stöðunni 20-23 tók þjálfari Aftureldingar leikhlé en ekki dugði það til þar sem að heimakonur héldu áfram að hamra á gestina. Afturelding náði að losa í stöðunni 24-23 og náðu að jafna í 24-24. Eftir mikla baráttu hjá báðum liðum endaði HK á því að sigra hrinuna 26-24.

HK konur komu inn í aðra hrinu með krafti og komu sér fljótt í 4-1 forystu þegar að þjálfari Aftureldingar tók þá leikhlé. Líkt og í fyrstu hrinunnni var Afturelding ekki lengi að koma sér á strik og jöfnuðu í stöðunni 8-8. Í stöðunni 9-11 fyrir Aftureldingu fékk Heba Sól gult spjald fyrir kjaft. Gestirnir héldu áfram að pressa á heimakonur og komu sér í 12-17 forystu. Eftir það áttu HK konur erfitt með að brúa bilið og enduðu Aftureldingar konur á því að sigra hrinuna sannfærandi 16-25.

Líkt og í fyrstu tveimur hrinunum byrjuðu HK konur að krafti og voru með yfirhödnina 4-1. Þær héldu forystunni fram að stöðunni 9-4 þegar að Afturelding gáfu í og jöfnuðu í stöðunni 10-10. Gestirnir voru með yfirhöndina 11-15 en þá náðu HK konur að minka muninn niður í 14-15. Aftur gáfu Afturelding í og komu sér í 14-18 forystu þegar að þjálfari HK tók þá leikhlé. Bæði lið sýndu mikla baráttu en með sterkum sóknum Aftureldingu höfðu þær betur og lokuðu hrinunni 18-25.

Heimakonur komu sterkar inn í fjórðu hrinu og leiddu 4-1. Afturelding jöfnuðu í stöðunni 8-8 og náðu eftir það 8-11 forystu. Þá tók þjálfari HK leikhlé og eftir það var hrinan ansi jöfn þar sem að liðin skiptust á því að skora fram að stöðunni 16-18 fyrir Aftureldingu. Þá settu Aftureldingar konur í annan gír og komu sér í 17-22 forystu. Áfram héldu gestirnir að spila af krafti og enduðu á því að sigra hrinuna 20-25 og þar með leikinn 1-3.

Stigahæst í liði HK var Heba Sól með 12 stig en á eftir henni var Þórdís með 11 stig. Stigahæst í liði Aftureldingar var Thelma Dögg með 18 stig og á eftir henni Tinna Rut með 16 stig.