Fréttir - Innlendar fréttir

Afturelding tók á móti meisturum KA

Afturelding tók á móti meisturum KA í bæði karla og kvenna í úrvalsdeildunum að Varmá í gær.

Kvennaliðin byrjuðu og KA konur sýndu strax að þær voru mættar og ætluðu að selja sig dýrt og helst að taka öll stigin sem þær og gerðu. 

Þær unnu fyrstu hrinuna sannfærandi 21-25 eftir að hafa leitt alla hrinuna þar sem Afturelding gerði mikið af mistökum.  Afturelding kom mun ákveðnari til leiks í næstu hrinu og tóku hana 25-20. Þriðju hrinuna tóku KA stúlkur 20-25  og fjórðu hrinuna tóku KA stúlkur einnig 22-25 og unnu því leikinn 3-1 og tóku því öll stigin með sér heim.

Stigahæst í liði gestanna var Paula del Olmoz með 17 stig og Helena Kristín Gunnarsdóttir með 14 stig. Í liði Aftueldingar var Thelma Dögg Grétarsdóttir stigahæst með 21 stig. 

Eftir leiki dagsins þá situr Afturelding ennþá í efsta sæti með 15 stig og KA í öðru sæti en með leik til góða. 

Karlaleikur sömu liða fór fram að loknum kvennaleiknum og var það hörkuspennandi og skemmtilegur leikur þar sem ekkert var gefið eftir.

Afturelding komu vel stemmdir til leiks og unnu fyrstu hrinuna 25-23 eftir skemmtilega hrinu. Sama var upp á teningnum í annarri hrinu þar sem heimamenn tóku hrinuna 25-21. Í þriðju hrinu voru KA menn komnir með bakið upp við vegg og komu mun grimmari til leiks í þriðju hrinu og unnu hana 16-25 og voru því enn á lífi í leiknum. Næstu hrinu tóku þeir einnig 19-25 og voru búnir að knýja fram oddahrinu og tryggja sér að minnsta kosti 1 stig út úr leiknum. Oddahrinan var eign heimamanna nánast allan tímann og voru þeir með þriggja stiga forskot þegar skipt var um völl. Að lokum vann Afturelding 15-13 og leikinn 3-2. 

Stigahæstir í liði KA var Miguel Mateo með 16 stig og Gísli Marteinn með 14 stig. Í liði Aftureldingar var Roman Plankin stigahæstur með 18 stig og Sigþór Helgason með 15 stig. 

Eftir leiki dagsins þá situr Hamar ennþá í efsta sæti og Afturelding í öðru sæti með jafnmörg stig og KA í þriðja sæti.