Erlendar fréttir

Gentofte með 3-2 sigur gegn Brønby í hörkuleik

Æsispennandi leikur fór fram á heimavelli Gentofte í dag þar sem að þær fengu Brøndby í heimsókn. Liðin spiluðu um 3. sætið á seinasta ári í danska meistaratitlinum og var því að búast við hörku leik.

Leikurinn byrjaði vel hjá Gentofte og komu þær sér strax í góða forystu. Brøndby spilaði þó vel og náðu jafnt og þétt að saxa á forskotið með hrinunni. Eftir að Gentofte hafði verið yfir alla hrinuna komust Brøndby í fyrsta sinn yfir í hrinunni í stöðunni 24-25, þjálfari Gentofte tók þá leikhlé sem ekki dugði til og Brøndby lokuðu hrinunni 24-26 og satt best að segja stálu hrinunni af Gentofte.

Brøndby konur voru heldur betur í góðu stuði eftir að hafa hrifsað fyrstu hrinuna af Gentofte og byrjuðu aðra hrinuna af krafti. Heimakonur létu það þó ekki stoppa sig. Í stöðunni 15-20 fyrir Brøndby fór Elísabet Einarsdóttir í uppgjöf og náðu Gentofte að minnka muninn niður í 18-20. Í stöðunni 21-22 tók þjálfari Brøndby leikhlé og settu gestirnir í fimmta gír eftir leikhléið og lokuðu hrinunni 21-25.

Heimakonur voru komnar með bakið upp við vegg og var því ekkert annað í stöðunni en að gefa allt í. Hrinan byrjaði jöfn en voru heimakonur ekki lengi að því að koma sér í 13-8 forystu. Gestirnir voru þó ekki tilbúnir að gefa frá sér hrinuna og jöfnuðu í stöðunni 16-16. Eftir það var hrinan hnífjöfn þar sem að liðin skiptust á að skora. Gentofte hafði þó betur og náðu að sigra hrinuna 25-23.

Bæði lið komu með krafti inn í fjórðu hrinu. Liðin skiptust á að skora, og var það fyrst í stöðunni 17-14 fyrir Gentofte þar sem að það varð meira en tveggja stiga munur á liðunum. Heimakonur voru í stuði og komu sér í 19-14 forystu. Gestirnir voru þó ekki tilbúnir að kasta frá sér hrinunni og náðu að minnka muninn niður í 21-19. Þjálfari Gentofte tók þá leikhlé og settu heimakonur í lás eftir leikhléið og kláruðu hrinuna 25-19 og knúðu þar með fram oddahrinu.

Heimakonur komu sterkar inn í oddahrinuna og byrjuðu strax vel þar sem að þær leiddu 5-2. Gentofte fengu síðan snúninginn í stöðunni 8-5 og tók þjálfari Brøndby leikhlé þegar að heimakonur voru komnar í forystuna 10-5. Gestirnir börðust fyrir hrinunni en með sterkum uppgjöfum Gentofte og föstum slögum áttu þær erfitt með að koma sér inn í hrinuna. Eftir að Gentofte hafði verið með yfirhöndina alla hrinuna kláraði Elísabet Einarsdóttir leikinn 15-9 með flottu slagi.

Gentofte sigruðu þar með æsispennandi leik 3-2 og sóttu því 2 góð stig heim. Næsti leikur Gentofte er á móti Holte sunnudaginn 22. október á heimavelli Holte.