Fréttir - Innlendar fréttir

Hamar sótti þrjú stig í Neskaupstað

Hamar sótti Þrótt Fjarðabyggð heim í Neskaupstað í Unbrokendeild karla í gær. Fyrsta hrina byrjaði ekki vel fyrir heimamenn þar sem lykil leikmaður þeirra, Melero meiddist snemma í hrinunni og varð þá hinn fimmtán ára Sölvi Hafþórsson að stíga upp. Hamar náði góðum tökum á hrinunni í stöðunni 17-11 og þrátt fyrir nokkur góð stig heimamanna var eftir leikurinn heldur auðveldur fyrir gestina sem tóku fyrstu hrinuna 25-15.

Bæði lið byrjuðu aðra hrinu af krafti og áttu þau bæði góða spretti en hægt og rólega náði Hamar yfirhöndinni og komu sér í góða stöðu 17-13. Heimamenn komu sér aldrei á strik aftur þar sem Hamar skellti í lás og tóku hrinuna 25-15.

Þróttur Fjarðabyggð voru þó hvergi nærri hættir. Með góðum varnarleik og sterkum sóknum náðu þeir yfirhöndinni í þriðju hrinu 16-11. Hamar reyndi hvað þeir gátu til að koma sér aftur inn í hrinuna en heimamenn héldu sterkir út alla hrinuna sem endaði 25–14.

Í fjórðu hrinu skiptust liðin á að skora flott stig og skiptust liðin á að leiða. Hamar náði þá yfirhöndinni þegar komið var í miðja hrinu 15-10. Heimamenn áttu nokkur góð stig til viðbótar en Hamar gengu á lagið og kláruðu hrinuna 25-15 með stigi beint úr uppgjöf. Þar með unnu þeir leikinn 3-1 og sóttu stigin þrjú.

Stigahæstur í liði Þróttar Fjarðabyggðar var Raul Asensio Garcia með 19 stig.

Stigahæstur í liði Hamars var Rafal Berwald með 20 stig.