Erlendar fréttir - Fréttir - Okkar fólk úti

Holte IF VS Sporting CP Lisboa

Á mánudaginn ferðuðust Sara og félagar til Portúgal til að taka þátt í undankeppni Challenge Cup. Fyrir leikinn var vitað að andstæðingarnir voru mjög góðir, sem dæmi hefur uppspilari þessa liðs spilað fyrir tyrkneska landsliðið. Holte vissi því fyrir leikinn við hverju mætti búast en vissu að allt gæti gerst ef þær spiluðu sinn leik.

Fyrsta hrina var jöfn framan af en um miðja hrinu náðu Sporting CP Lisboa góðu 6 stiga forskoti 18-12. Holte náði að minnka muninn 20-16 en þá settu Sporting CP Lisboa í fimmta gír og kláruðu hrinuna 25-16.

Önnur hrina gekk töluvert betur hjá Holte. Sporting CP Lisboa komst aldrei meira en 4 stigum fram úr og náðu Holte konur að jafna í stöðunni 22-22. Eftir það skiptust liðin á að vinna stig og Sara var með mjög mikilvæga blokk og kom Holte í 25-24 en þeim tókst ekki að loka hrinunni og vann Sporting CP Lisboa því hrinuna 25-27.

Þriðja hrina fór mjög vel af stað og skiptust liðin á að skora að 17-17 en þá náði Sporting CP Lisboa þriggja stiga forskoti 17-20 og héldu því forskoti út hrinuna og endaði hrinan 21-25.

Stigahæsti leikmaður Sporting CP Lisboa var Jady Gerotto frá Brasíliu með 19 stig og stigahæsti leikmaður Holte var Frida Brinck með 14 stig.

Allt í allt var þetta mjög flottur leikur hjá Holte en þær eru hvergi hættar og eru spenntar fyrir því að mæta aftur Sporting CP Lisboa á heimavelli þann 17.október.