Erlendar fréttir

Odense Volleyball tryggðu sér sæti í úrslitum um Danmarksmeistaratitilinn eftir 3-0 sigur gegn Gentofte

Fimmtudaginn 28. mars fengu Odense Volleyball Gentofte á heimavöll sinn þar sem að fjórði leikur í undanúrslitum var spilaður. Staðan var 2-1 í leikjum fyrir Odense Volleyball og áttu þeir séns á því að tryggja sér sæti í úrslitum myndu þeir sigra leikinn.

Gentofte byrjuðu vel þar sem að þeir leiddu 0-3 og 3-7. Liðin skiptust á því að skora en hélt þó Gentofte alltaf forystunni. Í stöðunni 16-19 fyrir Gentofte settu Odense Volleyball í annan gír og náðu að jafna í 19-19. Eftir spennandi endi á hrinunni sigruðu Odense Volleyball hrinuna 25-23.

Önnur hrina var hníf jöfn og var lítill sem enginn munur á liðunum. Liðin skoruðu til skipis upp að stöðunni 18-18. Þá settu Odense Volleyball í lás og lokuðu hrinunni 25-18.

Gentofte komu sterkir inn í þriðju hrinu og leiddu 3-7 og 9-15. Odense Volleyball náðu þó að finna taktinn og jöfnuðu í stöðunni 17-17. Liðin voru jöfn og var staðan 23-23. Odense Volleyball höfðu betur og sigruðu hrinuna 25-23 og þar með leikinn 3-0.

Odense Volleyball eru þar með búnir að tryggja sér sæti í úrslitum um Danmarksmeistaratitilinn og óskum við þeim innilega til hamingju með það.