Fréttir - Innlendar fréttir

Tvíhöfði á Húsavík síðastliðinn miðvikudag

Stelpurnar byrjuðu kvöldið og voru það Völsungskonur sem unnu leikinn 3-0 (25-19, 25-19,25-19)

Í fyrstu hrinu var jafnt fram að stöðunni 10-10 þegar heimakonur náðu að skríða fram úr og komust í 17-12. Þróttur tók þá leikhlé en munurinn var orðin of mikill og unnu Völsungskonur 25-19. Völsungur byrjaði aðra hrinu af krafti og komust í 6-0 þar sem Kristey uppspilari Völsungs var í uppgjöf og skilaði þremur ásum. Völsungskonur héldu áfram að pressa og voru í góðri stöðu í 14-5 en þá fengu gestirnir 5 stig í röð. Það dugði þó ekki til og unnu Völsungskonur 25-19 líkt og fyrstu hrinu. Þriðja hrina byrjaði líkt og önnur hrina og komust Völsungskonur í 8-1. Þróttarakonur náðu aðeins að minnka muninn en það dugði ekki til og unnu heimakonur 25-19 líkt og fyrstu tvær og þar með leikinn 3-0

Nikkia Benitez hjá Völsungi átti frábæran leik og var stigahæst með 22 stig

Maria Jiminez Gallego var að mæta aftur til Neskaupstaðar eftir smá frí fyrir áramót og var hún stigahæst með 9 stig í liði Þróttar

Eftir stelpunum var komið að leik hjá strákunum, leikurinn byrjaði jafnt þangað til 6-6 þegar Andri Snær fór í uppgjöf og átti gott run og var með 3 ása og kom Þrótti í 12-6. Erfitt var fyrir Völsungsmenn að ná þeim og unnu Þróttarar hrinuna nokkuð örugglega 25-13.

Völsungsmenn voru ekki sáttir með sig eftir fyrstu hrinuna og komu sterkir inn í aðra hrinu og leiddu 4-0. Þróttur náði síðan að komast yfir í 10-9 og eftir það skiptust liðin á að vera með forustuna. Völsungsmenn gátu svo klárað hrinuna en þeir voru yfir 24-23 en Raul Garica hjá Þrótti var í stuði og skoraði næstu 3 stig hjá þeim og unnu þeir hrinuna 24-26.

Í þriðju hrinunni voru það gestirnir sem voru yfir allan fyrri hlutann af hrinunni eða þar til Völsungur náði að jafna í stöðunni 16-16. Eftir það skiptust liðin á stigum. Þróttarar fengu þrjú tækifæri til að klára hrinuna en Völsungsmenn neituðu að gefast upp en eftir æsispennandi lokakafla enduðu Þróttarar á að vinna hrinuna 29-27 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæstur í leiknum var Þróttarinn Raul Garica sem átti frábæran leik með 20 stig
Stigahæstur hjá Völsungsmönnum var Trey Weinmeier með 13 stig.