Innlendar fréttir

Undanúrslit KA – Hamar í Kjörísbikar karla

Í dag voru það karlaliðin sem hófu leik og voru það Hamar og KA sem áttust við í fyrsta leik dagsins. Hamarsmenn byrja leikinn betur og ná upp fjagra stiga forystu strax í upphafi leiks í stöðunni 5-1 en KA nær þó að minnka muninn jafnt og þétt og ná að jafna í stöðunni 10-10. Eftir það er leikurinn virkilega spennandi og allt í járnum þar til um miðja hrinu. Þá taka Hamarsmenn örlítið við sér og ná upp fínu forskoti, 18-15, þegar KA ákveður að taka leikhlé. Það dugði ekki mikið til og tekur KA annað og síðasta leikhléið sitt í hrinunni í stöðunni 23-19 en Hamar heldur bara sínu striki og vinna hrinuna 25-19.

KA byrja aðra hrinu betur en Hamarsmenn og ná um þriggja stiga forskoti í stöðunni 3-6 þegar Hamar ákveður að taka leikhlé. Hamar gefur þá aðeins í og jafna í stöðunni 7-7. Liðin skiptast síðan á að leiða leikinn og er gaman að sjá hvað er mikið um frábærar sóknir og varnir og mikið um langar skorpur. Það er aldrei meira en eitt stig sem skilur að liðin út hrinuna og fer hrinan í upphækkun þar sem Hamar hefur betur í stöðunni 28-26.

Þriðja hrina spilast svipað og sú önnur og eru KA menn einu skrefi á undan Hamarsmönnum í byrjun hrinunnar. En Hamarsmenn eru alltaf fljótir að jafna leikinn á ný og komast yfir 8-7. KA ná svo upp forskoti um miðja hrinu og ákveða Hamarsmenn að taka leikhlé í stöðunni 16-19 fyrir KA. Það dugar ekki til að stoppa KA menn og þar að auki eru Hamarsmenn að gera heldur mikið af mistökum en taka þeir þó við sér á endanum og ná aðeins að saxa á forskotið niður í stöðuna 19-21 fyrir KA þegar KA menn taka leikhlé til að hægja á leiknum. KA nær þó að halda forystunni út hrinuna og vinna hana 25-21.

Fjórða hrina spilast eiginlega alveg eins og önnur og þriðja þar sem bæði lið eru mjög jöfn en KA menn alltaf einu skrefi á undan og ákveða Hamarsmenn að taka leikhlé í stöðunni 12-8. KA menn halda þó áfram sínu striki og breikka bara forskotið og í stöðunni 17-11 fyrir KA tóku Hamarsmenn leikhlé til þess að reyna að slökkva í gestunum. Þeir náðu heldur betur að saxa á forskotið en það dugði þó ekki til og KA vinnur hrinuna 25-19 og náðu KA menn að knýja fram oddahrinu.

Leikurinn hélt áfram að vera gríðalega spennandi og oftar en ekki skild aðeins eitt stig að liðin. KA leiðir hrinun 8-7 þegar liðin skipta um vallarhelming. Í stöðunni 9-9 settu Hamarsmenn í lás og komu sér í góða stöðu þar sem að þeir leiddu 9-13. Hamarsmenn voru sterkir og enduðu á því að sigra hrinuna 10-15 og sigruðu það með leikinn 2-3 og tryggðu sér sæti í úrslitum Kjörísbikar karla.