Innlendar fréttir

Vestri tók á móti HK í gærkvöldi

Í gærkvöldi fór fram leikur Vestra og HK í Torfunesi á Ísafirði í unbrokendeild karla. Heimamenn byrjuðu leikinn örlítið betur og pressuðu mikið á gestina. HK var þó ekki langt undan og náðu að snúa hrinunni sér í vil. Í stöðunni 8-11 tekur Vestri leikhlé. Það dugir ekki til við að stoppa gestina og halda þeir áfrm góðri pressu og varnarleik. Í stöðunni 15-20 HK í vil taka gestirnir við sér og ná að jafna í stöðuna 23-23. Hrinan varð síðan heldur betur spennandi og skiptust liðin á stigum en á endanum hafði Vestri betur og vann hrinuna 32-30.

Vestri byrja aðra hrinu ákaflega sterkt og komast í stöðuna 5-0. HK náðu þó að koma til baka og jafna leikinn í stöðunni 11-11. Hrinan var virkilega spennandi þar sem liðin skiptust á að skora. Undir lok hrinunar nær þó Vestri að síga aðeins fram úr HK og vinna hrinuna 25-20.

Gestirnir byrja þriðju hrinu af krafti og eru alltaf einu skrefi á undan heimamönnum með góðum sóknar- og varnarleik. Þeir ná 14-17 forystu en þá taka heimamenn aftur við sér og ná að minnka forskotið hægt og rólega og jafna leikinn í 23-23 líkt og þeir gerðu í þeirri fyrstu. Ná þeir síðan að klára hrinuna 26-24 og vinna þar með leikinn 3-0.

Vestri situr því nú í þriðja sæti deildarinnar með 14 stig en HK eru í sjötta sæti með 6 stig.

Ekki er vitað stigaskor leiksins en fréttin verður uppfærð þegar upplýsingar berast.