Fréttir - Innlendar fréttir

Völsungur fór með sigur af hólmi eftir hörkuleik

Í gærkvöldi fékk Þróttur Fjarðabyggð heimsókn frá bæði kvenna- og karlaliðum Völsungs.

Konurnar byrjuðu kvöldið á hörku leik þar sem Völsungur endaði á að fara með sigur úr leiknum. Þróttur mætti sterkari til fyrstu hrinu og náðu strax góðu forskoti í 6-1. Heimakonur héldu forystunni út hrinuna og þar skiptu mestu máli sterkar uppgjafir og kláruðu þær hrinuna nokkuð örugglega 25-16. Völsungur ætlaði hinsvegar ekki að láta valta yfir sig og byrjaði aðra hrinuna ansi sterkt og komust í 8-2. Þróttur tók þá leikhlé sem kom þeim í stöðuna 8-9. Eftir það var hrinan jöfn upp í  15-15 en þá gáfu Völsungskonur í og unnu hrinuna 18-25.

Þriðja hrina var svo miklu jafnari og skiptust liðin á að leiða en með góðum varnarleik og sóknum var Völsungur yfir i 15-13. Heimakonur sýndu þá góðan karakter og náðu að jafna í 23-23 og tók þá spennandi lokakafli við og endaði Þróttur með sigur i upphækkun 27-25. Völsungskonur komu gríðalega einbeittar inn í fjórðu hrinu og náðu fljótt góðu forskoti í stöðunni 15-9. Þróttur reyndi hvað þær gátu til að komast aftur inn í hrinuna en allt kom fyrir ekki og Völsungur vann örugglega 25-15.

Eftir virkilega flotta fjórða hrinu hjá Völsungskonum komu þær vel gíraðar inní oddahrinuna og voru yfir 8-3 þegar skipt var um vallarhelming. Þá náðu heimakonur að koma sér aftur inni i leikinn og náðu að jafna í 13-13 en þá tók þjálfari Völsungs leikhlé og mætti segja að hann hafi fengið eitt stig þar sem heimakonur klúðruðu svo uppgjöf og staðan orðin 14-13, Þróttur tók svo leikhlé en það virkaði ekki og vann Völsungur hrinuna 15-13 og þar með leikinn 3-2

Stigahæst hjá Völsungi var Nikka Jenneen mep 22 stig og hjá Þrótti var Lucya Martin Carrasco með 16 stig og á eftir henni var Heiðbrá Björgvinsdóttir með 15 stig