Fréttir - Innlendar fréttir

Afturelding með sigur gegn Þrótti Fjarðabyggð

Afturelding tók á móti Þrótti Fjarðabyggð í Mosfellsbænum í dag í Unbroken deild kvenna og karla.

Konurnar mættust í fyrri leiknum þar sem Afturelding hafði betur í fyrstu hrinu og vann hana sannfærandi 25-14. Mikil spenna bar í annarri hrinu sem var frekar jöfn og skemmtileg en Afturelding hafði betur í lok hrinunnar og vann hana 25-21. Þróttarar þurftu að gefa allt í þar sem staðan var 2-0 fyrir heimamönnum. Þriðja hrina byrjaði frekar jöfn en Afturelding náði góðri forystu í 15-9 þegar Þróttur tók leikhlé. Afturelding hætti ekki og komst í 18-9 þegar Þróttur gaf loksins í og komst í 20-13. Afturelding setti hins vegar allt í lás og vann hrinuna 25-16 og þar með leikinn 3-0. Stigahæst í liði Aftureldingar var Thelma Dögg með 16 stig og í liði Þróttar var það Heiðbrá með 9 stig.

Afturelding bætir við forustu sína á toppi deildarinnar eftir þennan leik með 24 stig. Næsti leikur Aftureldingar er í KA-heimilinu að viku liðinni í toppslagi þar sem KA eltir Aftureldingu með 23 stig eftir að hafa unnnið Álftanes 3-1 í dag. Þróttur Fjarðabyggð situr kyrr í 6 sæti með 4 stig en næsti leikur þeirra er laugardaginn 2. desember í Digranesi gegn HK.

Unbrokendeild karla

Seinni leikurinn í Varmá byrjaði frekar jafn en í lok hrinunnar gaf Afturelding í og vann hrinuna 25-21. Í annarri hrinu voru heimamenn með yfirhöndina meira og minna allan tímann og unnu hrinuna 25-19. Afturelding leiddi þriðju hrinu en Þróttarar settu allt sem þeir áttu í lok hrinnunnar sem dugði þó ekki til því að lokum unnu heimamenn 25-20. Stigahæstur í liði Aftureldingar voru Hafsteinn Már og Roman báðir með 14 stig og í liði Þróttar var það Raul með 16 stig.

Afturelding fer aftur upp í annað sætið eftir að Vestri fór upp fyrir þá eftir að hafa unnið Völsung fyrr í dag. Afturelding er 7 stigum á eftir Hamar með 21 stig og Vestri er rétt á eftir þeim með 19 stig. Þróttur Fjarðabyggð er í 6. sæti en eiga leik til góða á efstu þrjú liðin.

Líkt konunum eiga bæði Afturelding og Þróttur leik næsta laugardag gegn KA og HK í Unbroken deildinni.