Innlendar fréttir

HK með 3-0 sigur á heimavelli

Í gær fengu HK Stálúlf í heimsókn í Unbrokendeild karla.

Leikurinn byrjaði nokkuð jafn þar sem að liðin skiptust á því að skora og var staðan 7-7 og 13-12. Um miðja hrinuna gáfu heimamenn í og komu sér í 18-13 forystu. í stöðunni 19-15 fyrir HK settu heimamenn í lás þar sem að Máni Matthíasson fór í uppgjöf og skoruðu HK 6 stig í röð og lokuðu hrinunni 25-15.

HK byrjuðu aðra hrinuna sterkt og komu sér 5-0 yfir. Með sterkri sókn HK komu þeir sér í 13-5 forystu og átti Stálúlfur erfitt með að halda í við HK. Heimamenn gáfu ekkert eftir og sigruðu hrinuna 25-10.

Gestirnir komu sterkir inn í 3. hrinu og leiddu 2-6. Stálúlfur leiddu hrinuna að stöðunni 11-12 en náðu þá heimamenn að jafna í fyrsta sinn í hrinunni í 12-12. Liðin skiptust á því að skora en í stöðunni 15-15 gáfu HK í og komust í 23-17 forystu. Heimamenn lokuðu síðan hrinunni 25-20 og sigruðu þar með leikinn 3-0.

Liðin mætast aftur á laugardaginn en þá mun HK fara í heimsókn til Stálúlfs.