Innlendar fréttir

Afturelding sótti mikilvæg þrjú stig á Ísafjörð í gær

Í gær sóttu Afturelding Vestra heim í unbrokendeild karla í blaki. Vestri byrjaði fljótlega að leiða leikinn og náðu þeir allt að fjögra stiga forystu í stöðunni 16-12. Þá ákveður Afturelding að taka leikhlé og náðu þeir í framhaldi af því að saxa á forskotið hægt og rólega og náðu síðan á endanum að jafna í 18-18 úr stöðunni 18-15. Eftir það var Afturelding komið á gott ról og kláruðu hrinuna 23-25.

Aftureldingarmenn koma sterkir inn í aðra hrinu og voru þeir með yfirhöndina alla hrinuna. Þeir spila sterkan sóknar- og varnarleik sem heimamenn réðu ekki við og endar hrinan 12-25.

Þriðja hrina byrjar svo spennandi líkt og fyrsta þar sem bæði lið skiptast á stigum. Svo fljótlega fara Aftureldingarmenn að síga fram úr og ná upp forskoti á heimamenn. Í stöðunni 10-14 tekur Vestri leikhlé en það dugir ekki til við að hægja á Aftureldingu sem voru komnir á góða siglingu og unnu þeir hrinuna 20-25 og þar með leikinn 0-3.

Marcin Grasza var stigahæstur heimamanna með 14 stig en hjá gestunum var það leikmaður númer 11, Hafsteinn Már, með 18 stig.