Erlendar fréttir - Okkar fólk úti

Hebar með þriðja sigurinn í röð í Úrvalsdeildinni og Hristiyan var valinn maður leiksins

Hebar heldur áfram sigurgöngu sinni í Efbet deildinni í Búlgaríu. Í gærkvöldi fór fram þriðji leikur þeirra í deildinni og fór Hebar í heimsókn til Marek í heimabæ þeirra Dupnitsa. Hrinurnar fóru (25:18, 25:16 og 25:20) og sigruðu þar með leikinn sannfærandi 3-0. Hebar hefur ekki tapað hrinu í deildinni hingað til, og eru nú komnir með 9 stig og situr á toppi deildarinnar.

Strax í byrjun leiks sýndi lið Hebar ákveðni, vilja og hæfni, og sýndu þeir það í öllum þrem hrinunum. Þeir ætluðu heldur betur ekki að láta lið Marek koma sér á óvart. Þegar hrina tvö var rúmlega hálfnuð gerði Alberto Giuliani skiptingu Hebar megin og kom Hristiyan Dimitrov og Dobromir Dimitrov í tvöfalda skiptingu og kláruðu þeir þá hrinu með stæl 25:16. Í þriðju hrinu gerði þjálfari Hebar nokkrar skiptingar til viðbótar, til þess að gefa fleirum leikmönnum spilatíma. Hristiyan sýndi frábæra takta og unnu þeir hrinuna 25:20, þar sem Hristiyan skoraði sigurstigið. Eftir leikinn var valið maður leiksins og okkar maður Hristiyan Dimitrov fékk þau verðlaun eftir að hafa skorað 9 stig í rúmri hrinu.

Næsti leikur hjá Hebar í Efbet deildinni er á föstudaginn 10.nóvember, þar sem þeir munu taka á móti Levski, liðinu sem Hebar tapaði á móti 3-2 í úrslitum Super Cup í byrjun tímabils. Hægt er að horfa á leikinn í beinni í gegnum þennan hlekk á Max Sport 2 klukkan. 17:30 (íslenskum tíma), föstudaginn næsta.