Fréttir - Innlendar fréttir

Hamar sótti þrjú stig fyrir austan

Þróttur Fjarðabyggð tók á móti Hamri í gær þegar liðinn mættust í efri kross Unbrokendeildar karla. Gestirnir byrjuðu leikinn á mikilli uppgjafapressu sem kom þeim fljótt í forustu og tóku heimamenn leikhlé í stöðunni 7-2. Þróttur kom sér þá af stað með flottum sóknar leik en Hamar gaf lítið eftir og leiddi í stöðunni 15-11. Þróttur náði aldrei að vinna upp það forskot sem Hamar náði að byggja upp snemma í hrinunni sem endaði 25-18 fyrir gestunum.

Bæði lið komu inn af krafti í aðra hrinu og skiptust liðinn á að skora frábær stig og stóðu leikar jafnir í stöðunni 11-11. Hamar gaf þá í og skellti gjörsamlega í lás bæði í blokk og vörn og náðu að byggja upp gott forskot í stöðunni 19-13. Heimamenn voru þó hvergi nær hættir og náðu að vinna sig aftur inn í hrinuna 21-22 en dugði það ekki til og Hamar tók aðra hrinuna 25-22.

Gestirnir komu gríðalega einbeittir inn í þriðju hrinu og náðu strax góðum tökum á henni. Þeir komu sér í mjög þægilega tólf stiga forustu í stöðunni 18-6. Þróttur gafst þó ekki upp og sýndu flott spil og héldu áfram að berjast fyrir hverjum bolta en sigur Hamars í þriðju hrinu var aldrei ógnað og endaði hún 25-18 og þar með vann Hamar leikinn 3-0.

Stigahæstur í liði Þróttar Fjarðabyggðar var Raul Asensio Garcia með 14. Stig.

Stigahæstur í liði Hamars var Tomek Leik með 16. Stig.