Erlendar fréttir

Holte sigrar í fyrsta leik í úrslitum um danska meistaratitilinn

Fimmtudaginn 10. apríl tók Holte á móti ASV Elite í fyrsta leik í úrslitum um danska meistaratitilinn.

Þetta er þriðja árið í röð sem þessi tvö lið eigast við í úrslitum, og enn á ný lofar einvígið mikilli spennu. Astrid Melmølle, lykilmaður ASV Elite og einn besti leikmaður deildarinnar, spilaði þrátt fyrir að hafa brákað rifbein fyrir þremur vikum.

Leikurinn hófst jafn þar sem liðin skiptust á stigum. Í stöðunni 10-10 tók Holte við sér, vann sex af næstu sjö stigum og náði 16-11 forskoti. Þrátt fyrir góðan baráttuanda hjá ASV tókst þeim ekki að vinna upp forskotið og Holte kláraði hrinuna 25-17.

Í annarri hrinu byrjuðu Holte sterkt og komust í 7-3, en ASV svaraði fljótt og jafnaði í 8-8. Þaðan var jafnræði með liðunum fram að stöðunni 16-16. Þá tóku ASV leikinn í sínar hendur, náðu 17-21 forystu og kláruðu hrinuna 21-25 með öflugum sóknarleik. Staðan var því jöfn, 1-1.

Holte mættu ákveðnar til þriðju hrinu og komust fljótt í 5-1 og síðar 13-6. ASV náði að saxa á forskotið og minnkaði muninn í 13-11, en Holte svöruðu af krafti og fóru í 19-11. Hrinan endaði með öruggum 25-14 sigri Holte.

Fjórða hrinan var jöfn og spennandi, liðin skiptust á að skora en undir lokin höfðu Holte konur betur og lokuðu hrinunni 25-20, og þar með leiknum 3-1.

Næsti leikur fer fram þriðjudaginn 15. apríl þegar Holte heimsækir ASV Elite í Aarhus. Þar má búast við mikilli spennu, enda spilar ASV alltaf af krafti á heimavelli sínum þar sem stuðningurinn úr stúkunni er sterkur og mikill.