Innlendar fréttir

KA konur hirtu þrjú mikilvæg stig síðastliðin miðvikudag

Síðastliðin miðvikudag fengu KA konur Þrótt Reykjavík í heimsókn í síðasta leik deildarinnar fyrir krossana. KA konur voru á toppi deildarinnar ásamt Aftureldingu fyrir leikinn og ljóst að þær þurftu á öllum þremur stigunum að halda til að halda sér á toppnum. Heimakonur byrjuðu ansi vel og náðu strax upp góðu forskoti en þær komust í stöðuna 14-3 meðal annars. KA nær að halda um 10 stiga forskoti út hrinuna og vinna hana 25-13.

Önnur hrina var strax meira spennandi en sú fyrsta og voru liðin mjög jöfn þangað til um miðja hrinu en þá skriðu Þróttarar aðeins framúr og náðu fimm stiga forystu, 12-17. KA konur ná þó að jafna í stöðunni 23-23 náðu svo að vinna hrinuna í upphækkun 27-25.

Í þriðju hrinu breytti Mateo, Þjálfari KA, aðeins liðinu og leyfði ungum og efnilegum leikmönnum að spreyta sig og sýna hvers þær eru megnugar. burt séð frá því var hrinan í takt við þá fyrstu þar sem heimakonur náðu upp ágætu forskoti og þær héldu því út hrinuna og unnu hana 25-15.

Ánægjulegt er að sjá hvað ungir og efnilegir leikmenn eru að fá stærra og stærra hlutverk og standast þær kröfur sem gerðar eru til þeirra.

Stigahæst hjá KA var Helena Kristín Gunnarsdóttir með 13 stig og fast á eftir henni fylgdi Julia Bonet með 12 stig. Vert er einnig að minnast á að Anika Snædís Gautadóttir var með 10 stig í leiknum en hún er fædd 2009 og því ljóst að við eigum eftir að fá að sjá meira af henni í náinni framtíð. Stigahæst hjá gestunum var Katrín Sara Reyes með 8 stig og þar á eftir var María Gunnarsdóttir með 7 stig.