Föstudaginn þann 11. apríl fór Odense Volleyball þar sem að þeir Ævarr Freyr og Galdur Máni leika í heimsókn til Kaupmannahafnar þar sem að þeir spiluðu fyrsta leik gegn Gentofte í úrslitum um danska meistaratitilinn.
Báðir, Galdur og Ævarr, hófu leikinn í byrjunarliði Odense Volleyball. Leikurinn byrjaði jafn, með því að liðin skiptust á að skora. Eftir æsispennandi lokasprett í fyrstu hrinu hafði Gentofte nauman sigur, 25-23.
Önnur hrina hófst á svipuðum nótum, en í stöðunni 7-8 tóku Odense við sér og komust í 8-12. Gentofte svaraði þó fljótt og minnkaði muninn í 11-12. Þá fór Galdur Máni í uppgjöf og náði Odense Volleyball góðri skorpu og leiddi 12-17. Þrátt fyrir að Gentofte hafi náð að saxa niður forskotið smám saman, stóðu leikmenn Odense sig sterkt og kláruðu hrinuna 20-25, og jöfnuðu þar með leikinn í 1-1.
Þriðja hrinan var jöfn og spennandi, þar sem munurinn á liðunum fór aldrei yfir tvö stig. Um miðja hrinu tóku Odense yfirhöndina og náðu 16-20 forskoti. Með öflugum sóknarleik og góðum uppgjöfum héldu þeir forskotinu og kláruðu hrinuna 19-25.
Fjórða hrinan var ekki ólík þeim fyrri, liðin skiptust á að skora og héldust í hnífjafnri baráttu. Undir lokin komst Gentofte í 19-16 forystu, en Odense svaraði með krafti og tók fimm stig í röð, 19-21. Þeir héldu dampi og lokuðu hrinunni 22-25, sem tryggði þeim 1-3 sigur í leiknum.
Odense Volleyball leiðir því einvígið 1-0, og næsti leikur fer fram á heimavelli þeirra miðvikudaginn 16. apríl.