Habo Wolley þar sem að hann Hafsteinn Már leikur, spila um þriðja sætið í sænsku úrslitakeppninni gegn Vingåkers VBK.
Um er að ræða einvígi þar sem leikið er best af tveimur leikjum. Ef liðin standa jöfn eftir tvo leiki, er spiluð svokölluð gullhrina upp í 15 stig beint í kjölfar annars leiksins til að skera úr um sigurvegara.
Fyrsti leikurinn fór fram sunnudaginn 13. apríl á heimavelli Habo Wolley. Habo byrjaði leikinn af krafti og náði 7-3 forystu. Vingåkers svaraði með sterku áhlaupi og minnkaði muninn í 7-6, en Habo tók þá aftur frumkvæðið og komst í 11-6. Þeir héldu forskotinu og leiddu 16-10. Þegar staðan var 18-13 fyrir Habo, settu Vingåkers í lás, unnu 9 af næstu 11 stigum og komust í 20-22. Habo menn neituðu þó að gefast upp, tóku 5 stig í röð og unnu hrinuna 25-22.
Í annarri hrinu komu Vingåkers inn af miklum krafti og náðu yfirhöndinni snemma með 4-7 og síðar 6-11 forystu. Habo svaraði fljótt og jafnaði í 12-12. Eftir það var hrinan jöfn og spennandi, en að lokum höfðu Vingåkers betur eftir upphækkun og kláruðu hana 24-26.
Þriðja hrinan hófst jöfn, en í stöðunni 8-9 settu Vingåkers í næsta gír og komust í 9-15. Þeir höfðu algjöra yfirburði það sem eftir lifði hrinunnar og lokuðu henni með afgerandi hætti, 16-25.
Fjórða og síðasta hrinan var jöfn og spennandi frá upphafi til enda. Liðin skiptust á að skora og héldust í hnífjafnri baráttu. Í upphækkun höfðu Vingåkers betur og kláruðu hrinuna 26-28, sem tryggði þeim 1-3 sigur í leiknum.
Habo Wolley stendur nú frammi fyrir erfiðri stöðu og verða að vinna næsta leik annaðhvort 3-0 eða 3-1 til að knúa fram gullhrinu.
Seinni leikurinn, og jafnframt síðasti leikur tímabilsins fyrir Hafstein og félaga fer fram laugardaginn 19. apríl á útivelli hjá Vingåkers VBK.