Innlendar fréttir

Undanúrslit HK-KA í bikar

Stærsta blakhelgi ársins hófst í dag þar sem HK og KA áttust við. Bæði lið byrjuðu heldur betur af krafti og börðust gríðarlega. Mikið var um varnir og skiptust liðin á að skora stig. Þegar leið á sigu KA konur hægt og rólega fram úr og komust í 9-13 forystu þegar HK tekur leikhlé. Það slökkti þó ekki mikið í KA stelpum og þær héldu áfram virkilega góðri pressu úr sóknarleiknum þeirra. HK tekur sitt annað leikhlé í stöðunni 11-18. KA tekur hrinuna að lokum 25-14.

KA byrjaði að sama krafti og þær enduðu fyrstu hrinu og tekur HK strax leikhlé í stöðunni 4-0 fyrir KA. HK konur náðu þó að saxa á forskotið og ná að jafna 7-7. Liðin halda áfram að vera jöfn þar til í stöðunni 11-11 þá skora KA 6 stig í röð og komast í 16-11 forystu. HK konur eiga erfitt með uppgjafarpressu KA og ná ekki sóknarleiknum í gang sem gerir það að verkum að KA vinnur hrinuna 25-15.

Þriðja hrina byrjaði spennandi og HK konur ná upp góðu forskoti, 12-9. HK halda góðri pressu úr uppgjöf og hávörn og höfðu KA fá svör. KA tekur þá leikhlé í stöðunni 16-10 fyrir HK. KA konur koma sterkar úr leikhléinu og gáfu aðeins í sóknar- og varnarleik sinn og ná að jafna í 16-16. KA unnu svo að lokum hrinuna 25-19 og vinna þar með leikinn 3-0 og munu því spila til úrslita á laugardaginn.